Monday, February 22, 2010

Skáldið frá Fagraskógi

I

Um aldir skulu lifa í manna minnum
máttug kvæðin, fyrir vorum sýnum.
Engum dylst að friðinn enn vér finnum
í fegurst kveðnu skáldaverkum þínum.

Því dís frá himnum hörpu þína snerti
og huga þínum veitti blessun sína.
Þótt yrðu til við ljós frá litlu kerti,
ljóð þín fengu sólu til að skína.

Til himins sveifstu, svörtum fjöðrum þöndum
og sóttir mátt og styrk hjá anda merkum.
Og fátæk orð, þau urðu í þínum höndum
að undurfögrum, dáðum listaverkum.

II

Þótt sumir beindu að þér aumum rógi
og illmælum - það dugði ei nokkuð til. -
Svo fékk þinn andi af Fjölnis merka plógi
að frægðarverk þín mynda engin skil.
Þau lifa ennþá, skáld frá Fagraskógi,
og skapa vorum hjörtum varman yl.

Þótt farinn sértu man þig minnug þjóðin.
Hún man þig, sem þú værir hér í gær.
Því eitt er víst, að lengi lifir glóðin
og lífsins heiti, fagurrauði blær,
sem okkur færðu leikrit þín og ljóðin.
Enn lýsir stjarnan þín, svo undurskær.

Hún sendir frá sér geisla þann, er glitrar
og græðir jafnvel dýpstu hjartasár.
Og þerrir lítinn dropa, sem að sytrar
um sálarinnar myrku ólgugjár.
Og ef sá dropi enn á hvarmi titrar,
þá er hann bara lítið gleðitár.

III

Þú ortir ljóð um fagran Eyjafjörð
og fræ, sem urðu að deyja í grýttri jörð.
Um dalakofa og hvíta tjarnarálft,
um Katarínu - og um lífið sjálft.

Og sólin hefur sálu þína kysst,
og sál þín fékk að kynnast þeirri list
sem situr hátt við himnaríkis borð,
og hönd þín færði listina í orð.

Og þjóðin hefur þína strengi snert,
og þjóðin hefur einstakt starf þitt erft.
Því þú ert fræ, sem hlaust þann helga dóm
að hafna í jörð og verða eilíft blóm.

Thursday, February 04, 2010

Snorri og sandurinn

Afi Árnason er duglegur að benda mér á yrkisefni. Nýjasta dæmið er af Snorra nokkrum, ágætum vini afa míns og bónda á Sogni í Kjós, skammt frá sumarbústað ömmu og afa - Vinaminni. Nú bar svo við að afa vantaði sand, skít og/eða mold til að næra kartöflubeðið. Í september sagðist Snorri mundu redda þessu eins og skot, en enn bíður afi og þykist vita að biðin muni teygja sig fram á vor. Hann langaði til að senda Snorra ábendingu um þetta, í bundnu máli, og svo hljóðar hún:

Mig vantaði sand og ég sagði við marga
að sandinn ég þyrfti, mitt beð til að prýða.
Og snöggvast því ætlaði Snorri að bjarga
og snemma í september fór ég að bíða.

En biðin, hún teygði sig brátt yfir jólin
og bíða mun vafalaust fram yfir þorra,
en þá kemur vorið og þá kemur sólin
og þá kemur vonandi kerran hans Snorra.

Wednesday, December 30, 2009

Áramót

Tímamótin óðum nálgast nú,
er nýja' og gamla árið mætast tvö.
Áramótaóskin mín er sú
að aftur komi tvöþúsund og sjö.

Tuesday, November 24, 2009

Ferskeytlur...

...kunna að valda hugarangri þeim, sem þær setur saman. Sú er raunin um þann, sem þessi orð eru lögð í munn á:


Ferskeytlu ég ber á blað
bara þegar nenni,
því mér finnst svo erfitt að
yrkja samkvæmt henni.

Oft hef leikið grátt mitt geð
og gráðugt tuggið neglur.
Fullt ég á í fangi með
flóknar bragarreglur.

Mér í vegi myndi fátt
mega fá að standa
ef ég hefði æðri mátt
einhvers hagorðs fjanda.

Raun er önnur - gerist gramt
geðið vegna þessa.
Eðli mínu er ekki tamt
orð í brag að hvessa.

Eftir hætti er pínlegt puð
pælingar að virkja.
Eflaust væri stanslaust stuð
stuðlalaust að yrkja;

semja alls kyns atómdrög,
orðum saman lötra,
yrkja fram í lengstu lög,
laus við stuðlafjötra.

En...

...þó svo braglaus geti góð
gerst, er annað fegra:
Að ég stuðli öll mín ljóð.
Enda skemmtilegra.

Tuesday, November 03, 2009

Játning

Þetta er birt í von um að fólk hætti að spyrja þessarar óþolandi spurningar! Og hvað er málið með þessu endalausa í gær?? Það eru mörg ár síðan þetta gerðist, kommon!


Um atburð nú hefi ég of lengi þagað
og of lengi hefir mig samviskan nagað,
en nú verður lyginni létt.
Sem óþekkur bjáni ég hefi mér hagað
og heilmikinn skaðann ég get ekki lagað.
Því færi ég heiminum frétt:

Það gerðist eitt sumarið, langt fyrir löngu, -
ég lúinn kom heim eftir erfiða göngu
um fannhvítan fjallanna sal.
Ég kunni' ekki að greina hið rétta frá röngu
er róa mig langaði taugarnar svöngu ...
...og köku úr krúsinni stal!

Borið hefur á kvörtunum yfir því að síðustu línuna vanti í ljóðið. Það tilkynnist því hér að hana er að finna hvítletraða á milli þrípunkts og upphrópunarmerkis.

Wednesday, September 16, 2009

Öxlin hans afa

Afi Árnason hringdi í mig á dögunum og sagðist vera með yrkisefni. Fyrir skemmstu varð hann nefnilega fyrir því óláni, að snúa sína vinstri öxl úr lið. Þetta gerðist á göngutúr uppi í Kjós, þegar hann hugðist ganga yfir illa brúaðan skurð. Fyrr um kvöldið höfðu amma og afi snætt holu-grillað læri ásamt vinahjónum sínum, Erlu og Himma, eins og þeirra er siður og drukkið með því vín úr spænskri ,,belju". Himmi var honum samferða í göngutúrnum, og vitni að útúrsnúningi axlarinnar.
Núna, þegar öxlinni hefur verið kippt í liðinn, segir afi hana sennilega betri en áður.

Oft, er stígum ævidans
eitthvað markvert gerist
eins og þegar öxlin hans
afa úr liðnum snerist.

Minning um það lifir ljós
(ljótt jú annað væri).
Úti á palli, uppi í Kjós
átu holu-læri.

Þau drukku, sól uns settist þar
og supu margir hvelju;
því guðdómlega vínið var
víst úr spænskri belju.

Upp á dal var haldið hratt
og hér skal fest á prenti
að oní skurðinn afi datt -
og á hvolfi lenti.

„Svona“, sagði hann, „fer sem fer,
féll nú góður drengur.
Mér er ljóst að öxlin er
ekki í liðnum lengur.“

Nú var fyrir skildi skarð
en skrítið þótti mikið
að bjöguð öxlin bara varð
betri fyrir vikið.

Tuesday, September 01, 2009

Á bragaþingi í Efri-Vík 2009

Lesið upp á bragaþingi í Efri-Vík 29. ágúst 2009:


Í kvöld, kæru gestir, þér kvæðamenn mestir,
kveikjum vér ljóðanna eld
og vonum að pestir og vanheilsubrestir
verði oss fjarri í kveld.

Amann vér kyrjum er andann vér styrkjum -
á amstrinu vinnum vér bug.
Blýantinn virkjum - af alúð vér yrkjum
um allt, sem oss dettur í hug.

Um heima og geima lát stuðlana streyma
og um stórbrotna kvæðanna borg.
Vér látum oss dreyma - hér leyfist að gleyma
lífsins angist og sorg.

Sem tíðkaðist forðum, vér tendrum og skorðum
vort tungumál ennþá að vild.
Og sjá, hér að borðum fólk situr, sem orðum
kann saman að raða af snilld.

Í kvöld, kæru gestir, þér kvæðamenn mestir
sigla kvæðin hinn ljóðræna sjó.
Nú held ég að flestir, sem hér eru sestir,
hafi af mér fengið nóg.